Sjálfstæðisflokkurinn vill opinberar bátasmiðjur

Fyrsta verk Sjálfstæðisflokksins í nýjum meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks í sveitarstjórn Skagafjarðar var að leggja háar upphæðir af skattfé íbúa í plastbátasmiðjuna Mótun ehf. Stærstu hluthafar í fyrirtækinu sem um ræðir eru Kaupfélag Skagfirðinga og Sveitarfélagið Skagafjörður, en það starfar í beinni samkeppni við einkahlutafélög á markaði. 

Fulltrúa K-listans Grétu Sjöfn Guðmundsdóttur leist ekki á þá ófæru að Sveitarfélagið Skagafjörður færi í auknum mæli í beina samkeppni við einkahlutafélög á markaði. Hún lagði því fram eftirfarandi bókun á byggðaráðsfundi þar sem ákvörðunin var tekin: 

Óskað er eftir að lögð verði fram skrifleg greinargerð um rekstur félagsins ásamt nýrri rekstraráætlun áður en ákvörðun um hlutafjáraukningu er tekin. Einungis um átta mánuðir eru liðnir síðan ákvörðun var tekin um að sveitarfélagið setti 4,9 m.kr. af skattfé í hlutafé í Mótun ehf. og lögð var fram rekstraráætlun félagsins, sem nú virðist ekki standast. Undirrituð telur ekki rétt að sveitarfélagið setji meira skattfé íbúa í félag sem gerir út á margþætta starfsemi í samkeppnisrekstri með stærsta fyrirtæki sveitarfélagsins. 


K-listinn vill standa vörð um menningarverðmæti

 Á opnum framboðsfundi var því haldið fram af fulltrúa Vg og óháðra, að Sigurjón Þórðarson frambjóðandi K listans vildi setja hundruð milljóna króna úr sveitarsjóði til endurbyggingar á gamla bæjarhúsinu að Hraunum í Fljótum. Framangreind fullyrðing er á miklum misskilningi byggð.


Staðreynd málsins er sú að í kjölfar fréttar um að húsið fengist gefins, þá vaknaði áhugi Skagfirðinga búsettra í Reykjavík, að varðveita húsið fram í Lýtingsstaðahreppi. Einn áhugamannanna er Sigurður Sigurðsson, sá sem séð hefur um viðgerðir á Reykholti  á Sauðárkróki. Hann hefur fengið viðurkenningu fyrir handverk sitt við að endurbyggingu gamalla húsa, frá Reykjavíkurborg. Í framhaldinu voru heiðursfólkið Anna Fríða Kristinsdóttir og Viðar heimsótt að Hraunum og húsið skoðað - Það kom í ljós að ris hins sögufræga húss er stráheilt og hæft til flutnings.
Í samtali við sviðstjóra Minjastofnunar á Norðurlandi vestra, Þór Hjaltalín, kom upp sú hugmynd að staðsetja húsið á Hofsósi eða í gamla bænum á Sauðárkróki og Trausti Á Bjarnargili sem hefur verið ötull baráttumaður fyrir Fljótin, hefur einnig hug á að varðveita húsið í Haganesvík. Ljóst er að haganlega uppgert og svipmikið húsið myndi setja skemmtilegan svip á umhverfið hvar svo sem það verður sett niður .
 Sú hugmynd að Sveitarfélagið Skagafjörður kostaði viðgerðir var aldrei upp á borðinu en mögulega sæi það um að útvega lóð, hliðra til með gjaldtöku og væri innan handar við styrkumsóknir til opinberra sjóða. Minjastofnun hefur boðist til að kosta flutning á húsinu og stjórnvöld hafa markað þá stefnu að setja aukna fjármuni í varðveislu gamalla húsa.


Það er  fráleitt að kasta því fyrirfram út af borðinu að varðveita húsið í Skagafirði, og gera þá athugun fyrirfram tortryggilega. Það er ljóst Kvosin í Hofsósi og gamli bærinn á Sauðárkróki hafa mikið aðdráttarafl fyrir ferðafólk, en fyrst og fremst er það skylda okkar að hlú að menningarvermætum og sögunni.


Stefnuskrá K - lista Skagafjarðar

Stefnuskrá K – listans

K-listinn er óháður flokkum og fyrirtækjum, trúnaður hans er eingöngu gagnvart íbúum í Sveitarfélaginu Skagafirði.

K-listinn er skipaður kraftmiklu fólki sem hefur kjark til að taka ábyrgar ákvarðanir með hagsmuni íbúa að leiðarljósi:

  • Við höfum skýra framtíðarsýn sem við viljum vinna að með íbúum, fyrirtækjum, stofnunum og landeigendum
  • Við viljum vandaða umræðu sem leysir úr læðingi kraft og vilja íbúa  
  • Við ætlum að standa vörð um og efla opinbera þjónustu, stofnanir og atvinnu, með nýsköpun að leiðarljósi
  • Við viljum öflugt lýðræði, opna og virka stjórnsýslu 
  • Við  viljum að íbúar séu upplýstir um og boðin þátttaka í afgreiðslu mála í sínu nærumhverfi
  • Við viljum að sveitarfélagið taki í auknum mæli við verkefnum ríkisins
  • Við viljum að Skagafjörður verði eitt sveitarfélag

 

Frelsi, jafnrétti og bræðralag eru grunngildin okkar.

 

Rekstur og stjórnun

K-listinn leggur áherslu á heiðarleika, gagnsæi og ábyrgð í rekstri sveitarfélagsins. K-listinn er lýðræðisafl og vill leiða atvinnulíf og íbúa til samvinnu um mótun stefnu í öllum málaflokkum með því að

  • eiga frjóa og skapandi umræðu með íbúum um málefni sveitarfélagsins
  • virkja ungmennaráð Skagafjarðar með áheyrnarfulltrúum í  sveitarstjórn
  • koma á notendaráði fatlaðs fólks
  • treysta fjárhag sveitarfélagsins með að greiða niður skuldir þess
  • viðhafa góða stjórnsýsluhætti, skjóta og góða þjónustu við íbúa
  • sporna við gjaldskrárhækkunum og lækka fasteignagjöld til að bæta lífskjör íbúa
  • kanna reglulega launaþróun og lífskjör og tengsl þeirra við fækkun íbúa í Skagafirði
  • auka samstarf og samráð um verkefni við nágrannasveitarfélög
  • gæta meðalhófs og forðast kostnaðarsamar innheimtuaðgerðir gagnvart íbúum
  • auglýsa stöðu sveitarstjóra og ráða hæfasta umsækjandann

 

Skólamál

K-listinn telur það einn helsta styrkleika Sveitarfélagsins Skagafjarðar að þar starfa góðir skólar á öllum skólastigum, þeir eru mikilvægir fyrir þróun og lífsgæði í samfélaginu um allt hérað. K-listinn vill að allir íbúar Skagafjarðar hafi gott aðgengi að öllum skólastigum og óformlegri menntun.

K listinn leggur áherslu á að tryggja kennurum launakjör sem endurspegla mikilvægi starfs þeirra

K-listinn leggur áherslu á aukið samstarf skóla í Skagafirði til að efla gæði starfsins á öllum skólastigum

K-listinn vill útrýma biðlistum og tryggja örugga dagvistun fyrir öll börn í Skagafirði

K-listinn leggur áherslu á að opnunartími leikskóla þjóni hagsmunum barna og foreldra

K-listinn mun samræma skóladagatal skólanna í Skagafirði

K-listinn vill efla skólasamfélagið með virku foreldrasamstarfi

K-listinn mun taka ákvörðun um framtíðarskipan skólamála í dreifbýli og vinna að sátt um öfluga leik- og grunnskóla Austan vatna, í Varmahlíð og á Sauðárkróki

K-listinn leggur áherslu á uppbyggingu aðstöðu til íþróttakennslu á Hofsósi

K-listinn mun skipuleggja skólaakstur af hagkvæmni og með skýrum reglum um rétt barna og foreldra

K-listinn vill leggja rækt við kennslu í raun- og tæknigreinum, hönnun og listnámi

Atvinnumál

K-listinn telur að hlutverk sveitarfélagsins sé að tryggja atvinnulífinu góð vaxtarskilyrði með vönduðu skipulagi, heiðarlegum vinnubrögðum, hreinu umhverfi og góðri þjónustu þannig að fyrirtæki og stofnanir geti laðað til sín fólk í vinnu.

K-listinn vill stuðla að heilbrigðu samkeppnisumhverfi í Skagafirði

K-listinn vill leggja aukna áherslu á markaðssetningu og kynningu á Sveitarfélaginu Skagafirði sem góðum valkosti fyrir fólk, fyrirtæki og stofnanir

K-listinn telur opinbera þjónustu mikilvæga atvinnugrein í sveitarfélaginu og mun standa vörð gagnvart ríkisvaldinu um framtíð opinberra stofnana í héraðinu

 

Ferðamál

K-listinn vill vinna með ferðaþjónustunni að uppbyggingu og kynningu á Skagafirði sem áfangastað með

  • stefnumótun í ferðamálum
  • bættu aðgengi að söfnum sveitarfélagsins og uppbyggingu safnasvæðisins í Glaumbæ
  • því að gera fært um héraðið á góðum reiðleiðum, efla og kynna sýninga- og mótahald í hestamennsku auk uppbyggingar Söguseturs íslenska hestsins
  • Með því að bæta aðstöðu ferðafólks á tjaldstæðum og opnum svæðum

 

Landbúnaður

K-listinn vill einfalt, skilvirkt og gagnsætt regluverk um stoðkerfi sveitarfélagsins við landbúnað með því að

  • Einfalda og samræma reglur um auglýsingu og leigu á landi í eigu sveitarfélagsins
  • Endurskoða reglur um afrétti, fjallskil og lausagöngu búfjár

Sjávarútvegur

K-listinn vill tryggja nýliðun og framþróun í sjávarútvegi með því að

  • Heimila frjálsar handfæraveiðar fyrir Skagfirðinga í Skagafirði
  • Tryggja jafnræði í greininni
  • Auka vægi fiskmarkaða

Iðnaður

K-listinn vill efla nýsköpun og fjölbreytni atvinnulífsins jafnframt því að byggja á því sem fyrir er

  • Efla kynningu á Skagafirði sem matvælaframleiðsluhéraði og menntun í matvælaiðnaði
  • Fylgja eftir uppbyggingu trefjaiðnaðar með áherslu á menntun og þróunarstarf
  • Styðja við hönnun og nýsköpun í samstarfi við menntastofnanir og fyrirtæki

Orkumál

K-listinn vill að heimili og fyrirtæki í Skagafirði eigi hagkvæma kosti í orkumálum og mun

  • Klára lagningu hitaveitu í dreifbýli
  • Leggja áherslu á aðgengi að þriggja fasa rafmagni um allt hérað

Rannsóknir

K-listinn vill efla rannsóknarstofnanir og fyrirtæki til að styrkja grundvöll nýsköpunar og þróunar í samfélaginu með því að

  • Endurreisa Náttúrustofu Norðurlands vestra
  • Standa vörð um og efla starfssemi Háskólans á Hólum, Matís, Nýsköpunarmiðstöðvar, Iceprotein og Veiðimálastofnunar, Fablab og fleiri sprota
  • Efla rannsóknir á fornleifum, menningararfi og sögu

  

Samgöngumál

K-listinn vill að Skagafjörður sé virkur og vel tengdur. Til þess þarf að horfa út fyrir fjörðinn og sveitarstjórn að eiga samtal og samstarf við ríkisvaldið og önnur sveitarfélög

K-listinn vill móta stefnu um samgöngunet innan héraðs og tengingar við samgöngunet landsins með áherslu á

  • Jarðgöng á Tröllaskaga
  • Byggingu Sundabrautar
  • Varaflugvöll á Sauðárkróki
  • Endurbætur á Skagastrandarvegi og Holtavörðuheiði

K-listinn vill efla fjarskipti um allan Skagafjörð með markvissri áætlun um að koma á háhraðaneti til allra í sveitarfélaginu

K-listinn vill klára reiðvegaáætlun til að opna greiðar og góðar reiðleiðir um Skagafjörð

K-listinn vill bættar almenningssamgöngur innan héraðs

K-listinn leggur áherslu á öryggi í samgöngum, eftirlit og viðhald vega og löggæslu

K-listinn vill skilvirkan skólaakstur sem nýtist öllum skólastigum og almenningi

K-listinn vill sjá aukin umsvif við hafnirnar og mun láta gera úttekt á þróunarmöguleikum þeirra

 

Umhverfis- og skipulagsmál

K-listinn vill standa vörð um náttúru Skagafjarðar og nýta hana af ábyrgð með hagsmuni komandi kynslóða að leiðarljósi. Umhverfisvænir starfshættir eru hagsmunamál íbúa og fyrirtækja til framtíðar. Gott mannlíf þrífst í fögru og hreinu umhverfi. K-listinn

  • vill vernda náttúruperlur Skagafjarðar
  • vinna stöðugt og markvisst að skipulagsmálum
  • ljúka deiliskipulagi fyrir Hofsós
  • sinna skyldum sveitarfélagsins í skipulagsmálum á Hólum
  • leggur áherslu á fegrun umhverfis, frágang gatna og gangstétta á Hofsósi, Hólum og í Varmahlíð
  • leggur áherslu á fegrun og viðhald opinna svæða um allt sveitarfélagið
  • vill vinna markvisst að fráveitumálum  og hreinsun skolps
  • mun koma á sorpflokkun um allt sveitarfélagið bæði í þéttbýli og dreifbýli
  • mun koma á sorphirðu við íbúðarhús í dreifbýli
  • styður að háspennulínur séu lagðar í jörð
  • Vinna að sátt um vernd og virkjun vatnsafls 

Tómstundir

K-listinn vill að það sé alltaf skemmtilegt í Skagafirði og telur það hlutverk sveitarfélagsins að styðja frumkvæði íbúanna í öflugu tómstundastarfi fyrir alla aldurshópa

Íþróttamál

K-listinn leggur áherslu á virka þátttöku almennings í íþróttum, að nýta vel þau íþróttamannvirki sem við eigum sameiginlega, tryggja aðgengi að þeim og áframhaldandi uppbyggingu

  • auka fjármagn til íþrótta og tómstundastarfs barna og ungmenna til að bæta þjálfun og stuðla að fjölbreytni í uppbyggilegu tómstundastarfi
  • fyrir íþróttaiðkendur og íþróttamót allan ársins hring til að nýta og njóta fjölbreyttrar íþróttaaðstöðu
  • tryggja aðgengi fyrir alla að íþróttamannvirkjum og íþróttaviðburðum
  • með auknum opnunartíma sundlauga
  • stórbæta sundlaugaraðstöðu á Sauðárkrók

 

Menningarmál

K-listinn vill standa vörð um ímynd Skagafjarðar sem menningarhéraðs þar sem er skemmtilegt að vera með því að styðja

  • Tónlistarlíf og tónlistarmenntun
  • Safnastarf
  • Kvikmyndagerð og menntun í kvikmyndagerð
  • Uppbyggingu í myndlist og hönnun í samvinnu við iðnfyrirtæki og menntastofnanir
  • Frumkvöðla og félagasamtök sem gæða samfélagið lífi með viðburðum og hátíðum þannig að hér finni allir eitthvað við sitt hæfi

 

Mannréttindi

K-listinn vinnur að jafnrétti og af virðingu fyrir réttindum allra íbúa. Það er kjarni stefnuskrár okkar að þjóna almannahagsmunum, sýna réttlæti og sanngirni.

K-listinn mun hrinda í framkvæmd áætlunum um bætt aðgengi fyrir alla að stofnunum sveitarfélagsins

K-listinn mun beita sér fyrir framkvæmdasjóði fyrir einkaaðila vegna endurbóta á aðgengi

K-listinn mun starfa eftir jafnréttisáætlun og tryggja sömu laun fyrir sömu vinnu hjá sveitarfélaginu

K-listinn mun rækja skyldur sínar við alla íbúa, óháð búsetu

 

Velferð og fjölskylda

K-listinn vill standa vörð um og tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar.  Áhersla okkar er að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar. K-listinn

·         mun standa vörð um og efla uppbyggingu fjölskylduþjónustunnar og samþættingu hennar við aðra þjónustu sveitarfélagsins

·         leggur áherslu á að íbúar geti búið sem lengst heima, stundað atvinnu og lifað sem eðlilegustu lífi

·         vill bæta lífskjör þeirra sem standa höllum fæti

·         mun standa vörð um að fjármunir til þjónustu við fatlað fólk séu tryggðir

·         ætlar að vinna stefnu í húsnæðismálum með þátttöku fatlaðs fólks

·         vill sjá fjölbreytni í búsetumöguleikum aldraðra

·         vill styrkja dagdvöl aldraðra

·         hvetur til öflugs félags- og tómstundastarfs eldri borgara í Skagafirði

·         stendur vörð um þjónustu heilbrigðisstofnunarinnar þ.m.t. endurhæfingu og endurhæfingarlaug

·         vill stuðla að samþættingu heimaþjónustu sveitarfélagsins og heimahjúkrun

·         sér fyrir sér að húsnæði Furukots verði nýtt fyrir starfsemi Iðju- dagþjónustu og hæfingu

  

Skagafjörður: Virkur og vel tengdur!

 


Fasteignaskattar í hámarki

Fasteignaskattur í Sveitarfélaginu Skagafirði á að vera sambærilegur og hjá nágrannasveitarfélögum okkar

Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir

Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir

K–listinn leggur áherslu á lækkun fasteignaskatts á kjörtímabilinu þannig að hann verði eins og þau gerast lægst á Norðurlandi vestra. Með því að lækka fasteignarskatt léttum við álögur á fjölskyldur, hvetjum til nýbygginga og styrkjum atvinnulífið til  nýsköpunar.

Samkvæmt skýrslu sem unnin var af Verðlagseftirliti ASÍ hækkuðu fasteignagjöld í langflestum af fimmtán fjölmennustu sveitarfélögum landsins árin 2012 og 2013.  Hækkunina má m.a. rekja til þess að fasteignamat hækkaði verulega og einnig hér í Skagafirði.

Ef rýnt er í árbók sveitarfélaga árið 2013 má sjá að sveitarfélagið Skagafjörður er meðal sex sveitarfélaga af 32 með 1.000 íbúa og fleiri sem eru með hámarks prósentu á skatti sem lagður er á íbúðarhúsnæði.  Sveitarfélagið er meðal 20 sveitarfélaga sem eru með hámarks prósentu á atvinnuhúsnæði.

Ef horft er til nágranna okkar í vestur og austur má sjá að Húnaþing vestra, Blönduósbær, Sveitarfélagið Skagaströnd, Fjallabyggð og Dalvíkurbyggð eru öll með lægri fasteignaskatt á íbúðahúsnæði en Sveitarfélagið Skagafjörður. Húnaþing vestra, Blönduósbær og Sveitarfélagið Skagaströnd eru með lægri álögur á atvinnuhúsnæði.

Tökum dæmi um íbúðarhúsnæði í Skagafirði sem er metið á 22.7 m.kr. og 0,5 % skatthlutfall sveitarfélagsins, þá er árgjaldið 113.500 kr.   Ef sama fasteign er reiknuð út frá 0,4 % skatthlutfalls líkt og er á Skagaströnd væri árgjaldið 90.800 kr. Mismunur er 22.700 kr. íbúum Skagafjarðar í óhag.

Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir, skipar 1.sæti K- lista Skagafjarðar


Styrkur Hofsóss

Sjávarbyggðin Hofsós býr yfir miklum möguleikum til þess að blómgast og dafna.  Staðurinn er rómaður fyrir fallegt útsýni út yfir eyjaskrýddan Skagafjörðinn og inn til landsins gnæfir fallegur Ennishnjúkur. Umhverfið er sem ævintýri líkast en myndarlega hefur verið staðið að uppbyggingu gamalla húsa í Kvosinni á Hofsósi.

Hofsós

 

Á Hofsósi er; góður skóli, glæsileg sundlaug og hitaveita sem veitir íbúum yl. Á Hofsósi er sömuleiðis gott og harðduglegt fólk sem vill hvergi annars staðar búa.

Þrátt fyrir alla framangreinda kosti þá hefur íbúum Hofsóss fækkað.  Ástæðan fyrir fækkuninni ætti að vera öllum augljós, en búið er að girða að miklu leyti fyrir sjósókn og fiskvinnslu sem þorpið byggðist upp á. Ekki þarf miklar pælingar eða flókna verkefnavinnu til þess að sjá hver lausnin er á vandanum en hún er felst í því að opna möguleika íbúanna til að stunda þá vinnu sem Hofsós byggðist upp á.

K-listinn vill beita sér fyrir auknu jafnræði í sjávarútvegi en engin spurning er, að fyrirtæki á borð við Grafarós ehf á Hofsósi ætti alla möguleika til vaxtar ef það stæði jafnfætis þeim sem það er að keppa við um hráefnisöflun.

Í janúar sl. fluttu frambjóðendur K-listans, Gréta Sjöfn og Sigurjón tillögu  i sveitarstjórn Skagafjaðar þar sem mælst var til þess að stjórnvöld kynntu sér forsendur þess aukna frelsis sem Norðmenn veittu smábátum, en þeir fengu að veiða óheft hvaða fisktegund sem var.

Óhætt er að fullyrða tillögunni hafi ekki verið tekið fagnandi af öðrum sveitarstjórnarfulltrúum en Sjálfstæðismenn voru beinlínis á móti tillögu um aukið atvinnufrelsi en Framsóknarmenn og fulltrúi Vg samþykktu útþynnta breytingatillögu til þess augljóslega, að drepa málinu á dreif.

K-listinn mun beita sér óhikað fyrir því að Skagfirðingum verði leyfðar frjálsar handfæraveiðar í Skagafirði. Góð reynsla af strandveiðum þó takmarkaðar séu, sýnir hvað ótrúlega lítið þarf til, til að kveikja líf í höfnum landsins.

Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir, skipar 1. sæti K –listans, Sigurjón Þórðarson, skipar 2. sæti K- listans


Byr í Seglin

Sveitarstjórnarfulltrúar K-listans hafa lagt áherslu á að sveitarstjórn kanni sérstaklega hvort  laun í Skagafirði hafi áhrif á búsetuval en því miður hafa aðrir sveitarstjórnarfulltrúar ekki tekið undir að sú könnun verði gerð. Könnun um launakjör Skagfirðinga er að okkar mati ein forsenda þess að hægt sé að vinna markvisst að því að snúa íbúaþróuninni við.

 

Ársreikningur Sveitarfélagsins Skagafjarðar árið 2013 sýnir vissulega bættan rekstur  á síðasta ári. Afkoman er betri en áætlanir gerðu ráð fyrir og munar þar mest um 250 m.kr. auknar rekstrartekjur sem eru m.a. vegna aukinna framlaga Jöfnunarsjóðs, hærri skatt- og þjónustutekna. Eitt af því sem ársreikningur á m.a. skv. lögum að sýna, er hversu vel sveitarfélagið hefur staðist þá fjárhagsáætlun sem formlega var gefin út fyrir árið. Sjá má að rekstrargjöld eru 142 m.kr. hærri en áætlun gerði ráð fyrir og efast má því um að hagræðingaraðgerðir hafi skilað sér.

Skuldir og skuldbindingar sveitarfélagsins hafa hækkað verulega á hvern íbúa á kjörtímabilinu. Þær eru nú um ein milljón og fjögurhundruð þúsund krónur en voru í ársbyrjun 2010 liðlega ellefuhundruð þúsund krónur. Hækkun skulda er langt umfram almennar verðlagshækkanir á sama tímabili. Það er því ljóst að þrátt fyrir jákvæða rekstrarniðurstöðu sem ber að fagna, þá þarf að stíga varlega til jarðar hvað varðar fjárfestingar og enn frekari skuldaaukningu sveitarfélagsins.

 

Mikilvægt er að reksturinn verði með þeim hætti að hann skapi svigrúm til þess að greiða niður skuldir næstu árin. Forsenda þess  að fara í miklar framkvæmdir og fá verulegan byr í seglin er að snúa  íbúaþróuninni við , efla nýsköpun og samgöngur innan og utan héraðs s.s. með jarðgöngum undir Tröllaskaga og tengja Skagafjörð  og Eyjafjörð betur. Með  því fáum við  stærra og betra markaðs- og atvinnusvæði ásamt því að styrkja þéttbýli og sveitir á Norðurlandi vestra.

Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir og Sigurjón Þórðarson,
frambjóðendur K – lista Skagafjarðar


K- listi Skagafjarðar

K-listinn er óháður flokkum og fyrirtækjum, trúnaður hans er eingöngu gagnvart íbúum í Sveitarfélaginu Skagafirði.

K listinn við ferjumanninn

 

K-listinn er skipaður kraftmiklu fólki sem hefur kjark til að taka ábyrgar ákvarðanir með hagsmuni íbúa að leiðarljósi:

  • Við höfum skýra framtíðarsýn sem við viljum vinna að með íbúum, fyrirtækjum, stofnunum og landeigendum
  • Við viljum vandaða umræðu sem leysir úr læðingi kraft og vilja íbúa  
  • Við ætlum að standa vörð um og efla opinbera þjónustu, stofnanir og atvinnu, með nýsköpun að leiðarljósi
  • Við viljum öflugt lýðræði, opna og virka stjórnsýslu 
  • Við  viljum að íbúar séu upplýstir um og boðin þátttaka í afgreiðslu mála í sínu nærumhverfi
  • Við viljum að sveitarfélagið taki í auknum mæli við verkefnum ríkisins
  • Við viljum að Skagafjörður verði eitt sveitarfélag

 


Höfundur

K listi Skagafjarðar
K listi Skagafjarðar
K- listinn er virkur og vel tengdur

Eldri færslur

Mars 2024

S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband